Algengar spurningar frá foreldrum...😅

Algengar spurningar frá foreldrum...😅

Undanfarin 10 ár hef ég ferðast um landið með kynfræðslu fyrir foreldra á öllum skólastigum en líka á foreldramorgnum (áður en formleg skólaganga hefst) og ég hef fengið allskonar spurningar en hér er nokkrar sem koma aftur og aftur og aftur og aftur... og eiga eftir að koma aftur og aftur ☺️

Þetta er bara smá brot af spurningum sem ég svara í námskeiðinu „Kjaftað um kynlíf“

Barn kemur að foreldrum

Spurning: Barnið okkar er þriggja ára og kom að okkur í miðju keleríi um daginn! Við reyndum bara að eyða þessu en ég finn að ég þarf að útskýra þetta betur fyrir barninu. Ertu með einhver ráð?

Svar: Mestu skiptir að bregðast rólega við og útskýra. Það er í lagi að segja að þið hafið verið að stunda kynlíf, sem fullorðnir einstaklingar gera því þeim þykir það gott. Samfarir eru hluti af kynlífi og þá nudda fullorðnir saman kynfærunum því það er þægilegt. Fullorðið fólk, sem þykir mjög vænt um hvort annað, gerir þetta og það er annaðhvort hjón eða kærustupar. Ef þú bregst ókvæða við, jafnvel með reiði, þá getur barnið orðið enn ringlaðra. Þá er spurning um að loka að sér og setja þá reglu að ef dyrnar að svefnherberginu ykkar eru lokaðar þá skuli banka og bíða eftir að þið segið að það sé í lagi að koma inn.

Kynlífstæki í höndum sonarins

Spurning: Sonur minn, 6 ára, fann titrarann minn. Hann kom með hann fram og spurði glaður í bragði hvaða sniðuga dót þetta væri. Ég hefði getað dáið á staðnum, kippti þessu af honum og sagði að hann ætti ekki að vera að gramsa inni í herberginu mínu. Greyið, honum krossbrá. Hvað hefði ég átt að segja? 

Svar: Þarna var kjörið tækifæri til að taka smá kynfræðslu. Þú hefðir getað útskýrt fyrir honum að fullorðnir stundi sjálfsfróun. Ef þú hefur ekki frætt hann um hvað það sé þá er kjörið að gera það núna. Svo getur þú bætt því við að framleidd séu tæki fyrir fullorðið fólk sem hægt er að nota við sjálfsfróun eða í kynlífi með öðrum einstaklingi. Þessi tæki titra oft og eru sett við kynfærin eða nuddað við þau og getur það verið góð tilfinning. Ef spurningarnar verða fleiri þá getur þú svarað þeim þar til fróðleiksþorstanum er svalað. Það er alls ekki of seint að segja honum frá þessu núna því það kæmi ekki á óvart að hann væri enn að pæla í bleika tryllitækinu sem þú lumar á.

Sjálfsfróun barns?

Spurning: Ég hef tekið eftir því að dóttir mín, sem er 19 mánaða, snertir og strýkur kynfæri sín í frekar langan tíma og svo virðist sem hún fái smá krampa en slakar svo á og heldur þá aðeins áfram að fikta áður en hún hættir. Þetta gerist gjarnan þegar hún er í baði. Ekki getur verið að hún sé að fá fullnægingu? Er eitthvað hægt að gera í þessu? Svar: Þetta hljómar ansi líkt því að dóttir þín sé að fá fullnægingu en það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Krampinn sem þú lýsir er vöðvasamdráttur og alveg eðlilegur. Passaðu bara að hún geri þetta í einrúmi, eins og í baði. Ekki skipta þér of mikið af þessu og alls ekki skamma hana né banna henni þetta. Þetta er næmur staður á líkamanum sem ánægjulegt er að snerta.

Sjálfsfróun með aðstoð?

Spurning: Ég á 5 ára gamla dóttur, sem er enn á leikskóla og hefur alltaf verið mikið fyrir að nudda á sér kynfærin. Hún gerir það að lágmarki tvisvar í viku. Ég hef reynt að stýra því þannig að hún geri það í einrúmi inni í herbergi, en það kemur fyrir að hún vilji fá að liggja þétt hjá mér og nudda sér upp við mig. Ég veit ekki hvað mér finnst um þetta. Hvað segir þú við þessu?

Svar: Það er gott að þú reynir að stýra henni til að gera þetta í einrúmi og þá með sjálfri sér. Það sem er áhyggjuefni í þessu sambandi er að hún noti þig til að nudda sér upp við. Hún er orðin það gömul að hún ætti að skilja að þetta skuli hún aðeins gera með sjálfri sér. Möguleg ástæða þess að hún leitar til þín er ákveðið öryggi; hún gæti verið að nota sjálfsfróun sem leið til að róa sjálfa sig ef hún er óörugg. Það er því gott að aðskilja þetta tvennt og útskýra fyrir henni að þú sért enn til staðar þó hún geri þetta í einrúmi. Þegar hún er búin getið þið kúrt saman en á meðan hún er að gera þetta er best að hún sé ein inni í sínu herbergi. Þegar hún verður eldri og fer að skilja meira og mögulega ræða þetta við vini í skólanum, gæti skapast mikill misskilningur sem yrði til þess að hún upplifði þetta á neikvæðan hátt, jafnvel sem mikla skömm. Það væri því heppilegt að grípa inn í þetta áður en hún fer í grunnskóla og fær meira vit.

 

Líkami foreldranna

Spurning: Ég var í sturtu með dóttur minni um daginn og hún fór mikið að pæla í typpinu mínu enda var það í hennar augnhæð. Hún vildi fá að toga í það og pota en mér þótti það vægast sagt óþægilegt og skammaði hana og bannaði henni það. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að snúa mér í þessu. Hvað segir þú um þetta?

Svar: Það er vel skiljanlegt að þetta hafi verið óþægilegt en auðvitað er hún forvitin um það af hverju pabbi hennar er ekki með eins kynfæri og hún. Hér er gott tækifæri til að útskýra einkastaðina og að ekki séu allir með eins kynfæri. Flestir eru með annað hvort typpi eða píku. Svo getur þú spurt hvort hún vilji vita meira. En mikilvægt er að minna á mörkin og að við eigum okkar eigin kynfæri.

Er barnið mitt trans?

Spurning: Ég held að barnið mitt sé með kynáttunarvanda (ég las um það á netinu). Hún hefur bara alltaf sagt okkur að hún sé strákur. Nú þegar hún nálgast unglingsárin hef ég svolitlar áhyggjur af henni,því hún er farin að fá brjóst og hún kvíðir mjög mikið fyrir því að byrja á blæðingum. Er eitthvað sem ég get gert?

Svar: Það væri gott fyrir ykkur að leita til Samtakanna ́78 eða Trans-Ísland og fá ráðgjöf. Sum börn hafa fengið hormón til að „fresta“ kynþroskanum um nokkur ár eða hormón sem henta kynvitund viðkomandi betur. Þetta er þó ávallt gert í samráði við lækna, en teymi þeirra og annarra sérfræðinga á Landspítalanum vinna með transeinstaklingum, einnig börnum.

 

fleiri spurningar - og svör - er að sjálfsögðu að finna í námskeiðinum :)


ég vil skrifa athugasemd!

U sko bara svo þú vitir þá þarf þessi Sigga Dögg að samþykkja allar athugasemdir áður en þær birtast...