Um kynfræðslu og klám

Um kynfræðslu og klám

Ég þurfti að fá að dvelja í smá þögn í gær.

Ég las yfir hundruði skilaboða (og næ enn ekki að komast yfir allt því um leið og ég svara þá bætist bara í sarpinn) og ég les hvert einasta orð og ég heyri í ykkur, ég skynja og finn þakklætið og líka sársaukann. Þið rogist mörg hver áfram með sáraukafullar upplifanir af kynlífi og ofbeldi, trauma sem mótar ykkur og þið eruð að reyna heila og laga.  Ég finn líka hvað kynfræðslan skiptir ykkur miklu máli og hvað þið þráið að heimurinn verði betri fyrir komandi kynslóðir og þið vitið að aukinn kynfræðsla er lífsnauðsynleg!

Og við getum öll verið sammála um að það þarf meiri kynfræðslu. Það er gefið.

Sú kynfræðsla sem nú er við lýði í skólum landsins er alltof allskonar. Hjúkrunarfræðingar og margir kennarar eru að glíma við kerfi sem gefur þeim lítinn tíma og enn minni stuðning. Það eru einstaka skólastjórar sem setja kynfræðslu í forgang en þau mæta ósveigjanlegu kerfi. Hvenær fá kennara tíma og færi til að mennta sig í kynfræðslu? Hver grípur kennara þegar erfiðar spurningar koma upp og þegar kemur að endurmenntun? Og hvað á að kenna? Og hver á að gera það? Og hvenær? Og hvað er nóg?

Um kynfræðslu & klám from Sigga Dogg on Vimeo.

 

Þessum spurningum reyndum við, starfshópurinn hennar Sólborgar, að svara í skýrslu sem er væntanlega... ofan í skúffu í Menntamenningarmálaskólaráðuneytinu.

Og hvað svo?

Forsætisráðuneytið er með plan. Það er eitthvað. Er það nóg? 

Ég hreinlega veit það ekki.

Ég held ekki.

Og á meðan ákall er eftir meira samtali þá svara ég kallinu. Það mega fleiri gera það. Ég sit ekki eins og ormur á gulli. Eina krafan er að fræðslan fari fram í fordómaleysi af fagaðila sem hefur menntað sig í kynfræðslu. Eða það er mín krafa, og ætti að vera ykkar líka, er það ekki? Og kannski að fagaðilar komi að þjálfun og undirbúningi þess fólks sem á að sinna kynfræðslu.

Og kynfræðsla eru mannréttindi.

Það er staðreynd.

Þessi grein dregur kynfræðslu og hindranirnir sem hún stendur fyrir ágætlega saman.

Svo er það klámið.

Það er ríkir alger samstaða um að það sé ekki kynfræðsla. Það þarf að greina það og ræða það. Held að allir séu sammála um það. Er það ekki?

En þegar rætt er um klám þá þarf að ræða marga hluti og oft er stutt í að farið er að dæma kynhegðun sem ranga og rétta og það er ekki í boði. Það er í boði að tala um samþykki, mörk, nánd, samtal, virðingu, líkamstakmörk og getu og unað. Það er er hjarta kynfræðslunnar. Það er ekki hægt að afgreiða klám sem eitthvað eitt og neita svo að tala um það og rýna í, þó þér sem fræðara þyki það kannski ógeðfellt hegðun. Þetta snýst ekki um fræðarann, þetta snýst um samtalið og að mæta fólki með virðingu svo það geti þekkt sig sjálft og lifað í sátt og samlyndi við sig og aðra. Og þar ræður fjölbreytileikinn ríkjum. En mörgum þykir erfitt að fara inn í þetta samtal og það er skiljanlegt. Þetta er drulluflókið. Þess vegna krefst það þjálfunar. Þjálfunar í að aðgreina sig frá umræðuefninu, að triggerast ekki, lita ekki umræðuna útfrá eigin kenndum og fordómum og reynslu og vera gagnrýninn.

Það eru ýmis aðilar að reyna vera með mótvægi við „mainstream“ klám eins og það er oft kallað. Mér kemur einna helst í hug Cindy Gallop - Make love, not porn.

Og þýska verkefnið sem vinur minn og kollegi, Jack Lukkerz, var í og ég minnist á í myndbandinu. 

Og fræðikonan Feona Attwood!

Eru þetta fullkomin verkefni? Nei. Er meira til? Já. 

Hvað viljum við gera og hvernig? Það er stórt samtal með mörgum röddum og ólíkum. En það er samtal sem vert er að tala. Án þess að vera settur í flokkinn „tilfinningalegt uppnám“. Mega konur tjá sig án þess að vera stimplaðar móðursjúkar? 

Mig langar að nýta tækifærið og benda ykkur á nokkra aðra starfandi íslenska kynfræðinga sem einnig sinna kynfræðslu, á ólíkum skólastigum og til ólíkra hópa. Sóley Bender er okkar fremsti fræðimaður á sviði rannsókna á kynfræðslu og kennir kúrsa tengdu kynheilbrigði við Háskóla Íslands. Yvonne Kristín Fulbrigt er einnig sprenglærður kynfræðingur sem kennir við HR og HA auk bandarískra háskóla og er í samstarfi við Sóleyju um að uppfæra kynfræðsluefni sem Sóley skrifaði fyrir framhaldsskólakennara og nemendur. Þá er einnig hægt að sækja sér diplómu í kynfræði á framhaldsnámsstigi við Háskóla Íslands. Það er nefnilega til fullt af fagþekkingu! Svo ekki sé minnst á alla nemana sem elska að rannsaka kynfræðslu - þverfagleg þekking sem skapast þar.

 Indíana Rós er mörgum kunn og var það magnað að hitta hana þegar hún var 17 ára gömul þar sem hún tilkynnti mér hátt og snjallt að hún ætlaði sér að verað kynfræðingur, hún ætlaði að vinna við mína vinnu. Ég bauð hana velkomna og sagði henni að ég skyldi gera hvað sem í mínu valdi stæði til að láta þann draum verða að veruleika. Og sjáiði hvar hún er núna?! Kynfræðingur í fullu starfi við einn grunnskóla fyrir utan höfuðborgarsvæðið! Það er ekkert smá afrek á skömmum tíma hjá skólakerfinu! Kynfræðingur í fullu starfi við skóla?! Það er magnað!

Og auðvitað Áslaug Kristjánsdóttir kynfræðingur og kynlífsráðgjafi sem sinnir fullorðinsfræðslu og ráðgjöf. Og við kennum saman kúrs við HR sem heitir Almenn kynfræði og stendur sálfræðinemum til boða.

Birna er kannski nýjasti kynfræðingurinn okkar og er ákaflega öflug með fræðslu fyrir Losta og á samfélagsmiðlum.

Og þetta eru ekki einu sinni allir kynfræðingarnir upptaldir, þetta eru bara þeir sem starfa núna við ólíka þætti kynfræðslu! Jóna Ingibjörg var, og er, brautryðjandi í þessu samtali og hefur einmitt þurft að þola allskyns... ummæli og jafnvel rógburð um sig og sín störf því hún þorði að tala um málefni áður en landinn ákvað að það væri leyfilegt.

Starf kynfræðings felst ekki í þögn. Starfið felst í því að mæta öllum, sama hvar þau eru stödd, og vera til staðar, svara, fræða, hjálpa fólki að skilja sig og aðra.

Takk fyrir öll fallegu skilaboðin, hvatningu, að deila reynslu ykkar og samstöðuna!

Við erum að breyta þessu landi og bæta það, ég finn það í hjartanu.


2 hugsanir

  • Elín Sigríður

    Ég er svo glöð og þakklát fyrir að þú sért til! Þú ert með betri fyrirmyndum. Hrein og bein.

  • Hrafn Arnarson

    Kærar þakkir. Þu stendur þig vel i mikilli orrahrið. Enginn þarf að efast um mikilvægi kynfræðslu á timum klámvæðingar og samfelagsmiðla. Gangi þer vel.


ég vil skrifa athugasemd!

U sko bara svo þú vitir þá þarf þessi Sigga Dögg að samþykkja allar athugasemdir áður en þær birtast...