Söguhetjan okkar Marín, skrifar reglulega pistla sem hún hengir upp inni á kaffihúsinu sínu í Hólavallagarði.
Nándarforvitni
Mig langar að vita hvernig þú smakkast.
Mig langar að finna lyktina þína og sjá hvernig þú hreyfir þig. Mig langar að finna hitann frá þér og þungann af þér. Ég vil kynnast þér, í gegnum líkama þinn. Mig langar að sjá hversu mikið þú getur gefið.
Má ég vera góð við þig?
Þegar ég uppgötvaði sleik var ekki aftur snúið, mér fannst þetta geggjað fyrirbæri. Ég kiknaði í hnjánum og hitnaði öll að innan. Mig langaði að smakka svo marga. Ég var svo forvitin um kossa og hvernig fólk kyssti og hvaða tenging kviknaði á milli okkar.
Svo varð sleikur að hönd niður í brók sem svo varð að innsetningu. Og allt var þetta stórmerkilegt.
En ég var kona. Stelpukona sem á ekki að vilja of mikið og ekki of oft og ekki með of mörgum.
„Kanamella!“
„Þú ert búin að vera með öllum.“
„Þú ert alger drusla.“
„Hann vill bara byrja með þér því hann langar að ríða þér.“
Ég persónulega hef aldrei skilið af hverju konur má ekki langa. Og af hverju konur þurfa að vera í eilífri megrun. Öll líkamleg nautn er skert. Það eina sem við megum eyða í eru efnislegir hlutir.
En mig hefur alltaf langað.
Meira að segja þegar ég átti minn fyrsta kærasta.Ég elskaði hann svo heitt, ég sá ekki sólina fyrir honum. En mig langaði í meira og aðra.
Og ég skildi það ekki.
Var ég skemmd?
Hóra í kjarnanum mínum?
Var ég fordæmd til að halda fram hjá?Var ekkert og enginn nóg fyrir mig?
Var ég svona vanþakklát?
Svo ég burðaðist með skömm.
Skömm yfir hugsunum og löngunum og tryllingi.
Kannski myndi ég róast með rétta manninum.
Þá myndi mig ekki langa svona mikið.
Líka ef ég yrði mamma, þá yrði ég venjuleg.Einn maður er nóg. Allir segja það. Það eru reglurnar.
Ég hafði bara ekki fundið manninn til að róa mig. Henda stórum keðjum yfir mig og negla mig niður í moldina.
Kannski vantaði mig jarðtengingu? Kannski var ég brotin. Eða tengslaröskuð. Örugglega bæði.
Góður maður yrði mín syndaaflausn. Þá myndi fortíðin gleymast og framtíðin yrði björt, eins og lygn sær á sólríkum degi. Ég fann hann, góða manninn.
Á ögurstundu.
Tryllingurinn hafði næstum heltekið mig.
Hugmyndir um frelsi voru að kæfa mig.
Svona virkar ekki samfélagið. Það er ekki til pláss fyrir þig. Þú ert röng. Vertu rétt.
Svo ég hlýddi.
Örugg. Róleg. Meðtekin. Venjuleg.
Og fólkið allt um kring gat andað léttar.
En tryllingurinn lét á sér kræla þegar ég gleymdi mér.
„Vá, hvað hann er fallegur, hann ber sig svo vel, það er svo góð lykt af honum, við erum að eiga stund saman, ég finn tenginguna, ég veit að hann langar en ég má ekki, ég má ekki, ég má ekki, ég má ekki. Ég er góð, ég er ekki vond, ég er góð.“
Og ég kyngdi.
Sagði tryllingnum að grjóthalda kjafti.
Góðar konur hugsa ekki svona og ég er góð kona. Farðu burt.
Láttu mig vera.
Ég hlýddi öllum reglunum. Ég gerði allt rétt. Farðu.
Ég er ekki svona.
Ég vil ekki vera svona.
Ég ætla ekki að vera svona.
Svo hætti ég að mæta spegilmyndinni minni.
Andaði grynnra.
Hjúpaði skinnið. Klippti hárið. Faldi mig.
Reyndi að grafa mig í öllu öðru en eigin hugsunum og tilfinningum.
Tryllingurinn gafst ekki upp.
Það er hægt að lækka hljóðið í sálinni en það er ekki hægt að slökkva á því.
Hún ruddist fram. Tók mig yfir. Braut mig.
Það er til fólk eins og ég í þessum heimi.
Það er ekki vont fólk. Það eru ekki hættulegar konur.
Eða hjónadjöflar eða lausgyrtar dræsur eða öll hin orðin.
Það eru til konur sem langar og það eru til menn sem elska konur sem langar.
_________________________________
Comentários