top of page
Tryllingur

Tryllingur

3.990krPrice

ATH!!!

 

PANTANIR GERÐAR EFTIR 18.DES ERU AFGREIDDAR Á MILLI JÓLA OG NÝÁRS!

 

Tryllingur er fyrsta sagan í þríleiknum um Marínu.

 

Ætli formáli bókarinnar gefi ekki ágæta vísbendingu um innihaldið:

 

Skáldlegur sannleikur lýsir inntaki þessarar sögu ágætlega. Þessi saga, saga mín, ristir djúpt en hún þarf að fá að koma fram. Orðin falla yfir mig þegar ég fer að sofa og þau vekja mig áður en síminn pípir. Hún ryðst fram. Ég er eiginlega bara verkfæri. Sumar dagbókarfærslurnar eru orðréttar upp úr gamalli dagbók og aðrar ögn færðar í stílinn, enda þykir mér fallegast þegar raunveruleikinn fær að vera ævintýri líkastur. Ég er ekki viss um að ég hefði getað skrifað þetta af heiðarleika nema með því að skapa fjarlægð og búa til heim sögupersónunnar okkar, sem fær margt að láni úr mínum eigin heimi. Ég les og hlusta nær eingöngu á sögur kvenna um þeirra eigin líf. Mér finnst það merkilegt, hvað það felur í sér að vera kona í þessum heimi. Þá eru mæðgur og náin vinkvennasambönd mér sérstaklega hugleikin. Þeir eru óteljandi kaffibollarnir sem hafa verið drukknir á meðan við vinkonurnar kryfjum þau sambönd inn að beini, bæði sem mæður og dætur. Vegna þess að ég upplifi mig stundum eina í heiminum, og einmana, þá veit ég hversu dýrmætt það er að finna vin. Einhvern sem skilur og ég tengi við. Vin í eyðimörkinni, var á sjónum. Og það hef ég oft fundið í sögum annarra kvenna. Þar finn ég djúpstæðan skilning og samkennd. Hjarta mitt opnast og ég sendi þeim sem deila með mér sögu sinni þakklæti fyrir hugrekkið.

 

Kannski er það þess vegna sem ég skrifa þessa sögu.

 

Ef þú ert tryllingur eins og ég þá vona ég að þú finnir smá skjól og tengingu í þessum skrifum. Ef þú elskar konu sem er tryllingur þá vona ég að þetta hjálpi þér að skilja hana og styðja við hana. Og elska hana, alveg eins og hún er.

 

Konurnar í mínu lífi eru margar og þær eru mér dýrmætar - og þær vita það. Konurnar mínar sjá mig og elska mig og fyrir það er ég þeim ævinlega þakklát. Stelpur, sálarsystur, þessi skrif eru líka fyrir ykkur.

Takk fyrir að gefa mér pláss og elska mig skilyrðislaust. Líka þegar ég er mikið og með læti og með drama og fyrirferðarmikil og í sjálfsvorkun.

Þegar þetta er skrifað hef ég verið á markvissu sjálfsvakningarferðalagi í fjögur ár (eða alltaf) og því er hvergi nærri lokið.

 

Ég býð þér að koma með mér í þetta ferðalag.

 

Þetta ferðalag hefur skilað mér innri ró, auknu hugrekki, meiri kærleika, fyrirgefningu, þakklæti, aukinni samkennd og hægari takti. Mig langar að leyfa þér að vera með. Þessi saga er sú fyrsta í þríleik. Já, það dugar ekkert minna en hin heilaga þrenning.

 

Mér finnst svo mikil fegurð í berskjöldun og einlægni og þess vegna ber ég á lyklaborðið. Um leið og ég skrifa, þá losnar um hnútinn. Ég vona að þú njótir ferðarinnar með mér, hún verður alls konar.

bottom of page